Harðfiskur

Framleiðslan krefst vandasamra vinnubragða. Í vinnsluferlinu á sér stað mikil rýrnun á hráefni og er notast við þá puttareglu að af hverjum 12 kílóum af ferskum fiski megi vinna 1 kíló af harðfisk.

Þegar afurðir koma í hús eru þær hausaðar, flakaðar og roðrifnar. Þá tekur við beina- og ormahreinsun á ljósaborði. Því næst er flökunum raðað á grindur og þau sett í þurrkherbergi. Hitastigi við þurrkun er stjórnað með sérstökum strompum sem hægt er að opna og loka fyrir. Vinnslutími getur spannað allt frá fjórum og upp í sjö daga, en slíkt fer allt eftir úrkomumagni utandyra. Þess má geta að inn í klefa eru til staðar rafstýrð þurrkunartæki sem sjúga mestallan raka úr lofti.

Að aflokinni þurrkun eru afurðir settar í valsavél til þess að mýkja þær upp. Oft þarf að fara margar umferðir og fer það einfaldlega eftir ástandi fisksins og rakastigi hans. Þegar völsun lýkur, er afurðum komið fyrir í neytendaumbúðir.

Næringargildi í 100g
Orka 1390 kj/327 Kcal
Prótein 80,3 g
Fita 0,67 g
Kolvetni 0 g
Trefjar 0 g
Steinefni 7 g
Vatn 14,2 g
Salt 2,5 g